Nýtt baðlón eitt af verkefnum innan Jarðhitagarðs ON

Áformað er að nýtt baðlón opni innan Jarðhitagarðs Orku náttúrunnar innan fárra ára en unnið hefur verið að þróun þess að undanförnu. Nú er vinnu lokið við frumhönnun á mannvirkjum og upplifunarsvæðum baðlónsins sem verður í Hveradölum og miða áætlanir við að lónið opni sumarið 2028.

Fullkomið hringrásarferli jarðhitans

Nýja baðlónið í Hveradölum mun spila lykilhlutverk í Jarðahitagarði ON, sem er vettvangur fyrir nýsköpun og sjálfbærni þar sem framsækin fyrirtæki byggja upp lausnir sem stuðla að betri nýtingu auðlinda og minni sóun. Kjarninn í hönnun lónsins byggir þannig á hugmyndum um sjálfbærni, hringrásarhagkerfið og heilnæmi þar sem jarðhitavökvi, sem Orka náttúrunnar nýtir til orkuframleiðslu, verður áfram nýttur til að hita upp baðlónið og síðan dælt aftur niður í jarðhitageyminn þar sem vökvinn hitnar upp á ný og er endurnýttur með sama hætti í fullkomnu hringrásarferli.

Fellur vel inn í fallegt umhverfið

Gert er ráð fyrir að lónið verði allt að 6000 fermetrar að stærð en með nokkrum afmörkuðum baðsvæðum til að tryggja sem best hagkvæma nýtingu jarðvarmans. Mannvirki verða samtals um 6000 fermetrar og munu falla vel inn í umhverfið en lónið verður staðsett í hjarta Hveradala í Stóradal þar sem gestir munu njóta stórbrotins útsýnis yfir fjalllendi og jarðhitasvæðið í kringum Hellisheiðarvirkjun. Baðlónsverkefnið hefur farið í gegnum umhverfismat hjá Umhverfisstofnun og er eina baðlónsverkefnið á Íslandi sem farið hefur í gegnum slíkt ferli. Byggingarefni og innviðir verða valdir með sjálfbærni að leiðarljósi og lágmörkun umhverfisáhrifa verður í forgangi.

Þessi áhersla fellur einmitt mjög vel að áherslum Jarðhitagarðs þar sem fyrirtæki sem einbeita sér að sjálfbærni, jarðvarma og hringrásarsamfélaginu eru boðin sérstaklega velkomin.

Mikil ánægja með samstarfið

Verkefnið er unnið í samstarfi Hveradala ehf., sveitarfélagsins Ölfus sem fer með skipulagsvald á svæðinu og Jarðhitagarðsins. Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Hveradala segir áfangann marka stórt skref í átt að því að þróa spennandi baðupplifun fyrir íslenska og erlenda gesti sem byggir á baðmenningu okkar Íslendinga. „Sérstaða baðlónsins í Hveradölum verður þríþætt; hringrásarnálgunin, heilnæmi jarðvökvans, og einstök staðsetning lónsins í gígnum í Stóradal. Um verður að ræða einstakan áfangastað fyrir þá sem vilja sameina náttúru og vellíðan í umhverfi sem hannað er með sjálfbærni- og hringrásarhugsun að leiðarljósi og þar sem tengsl upplifunar og jarðhitaauðlindarinnar verða augljós. Við höfum undanfarna mánuði átt frábært samstarf við ON og erum afar ánægð með að baðlónið verði hluti af Jarðhitagarðinum á Hellisheiði,“ segir Þórir.

Helga Kristín Jóhannsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri Jarðhitagarðs ON, tekur í sama streng. „Við hjá Orku náttúrunnar erum virkilega ánægð með samstarfið og erum spennt að sjá þessa góðu hugmynd um baðlón í Hveradölum raungerast. Við fögnum fleiri fyrirtækjum í Jarðhitagarð ON þar sem tækifærin eru ótalmörg og verið er að skapa hringrásarsamfélag þar sem samstarfsaðilar deila innviðum, þekkingu og auðlindum til að lágmarka sóun og hámarka ávinning fyrir fyrirtækin, samfélag og náttúru. Við styðjum við nýsköpun tengda jarðvarma, sem nýtt baðlón er einmitt frábært dæmi um, og flýtum þannig fyrir framþróun grænna tæknilausna. Saman vinnum við þannig að ábyrgri nýtingu auðlinda svæðisins“.