Framtíðarsýn

Í Jarðhitagarði viljum við skapa hringrásarsamfélag þar sem samstarfsaðilar deila innviðum, þekkingu og auðlindum til að lágmarka sóun og hámarka ávinning fyrir fyrirtækin, samfélag og náttúru. Við styðjum við nýsköpun tengda jarðvarma og sjálfbærni og flýtum þannig fyrir framþróun grænna tæknilausna. Saman vinnum við þannig að ábyrgri nýtingu auðlinda svæðisins.

Miðstöð nýsköpunar

Unnið er að uppbyggingu Nýsköpunarkjarna innan Jarðhitagarðs. Í Nýsköpunarkjarna Jarðhitagarðs geta minni fyrirtæki, háskóla- og þróunarverkefni sótt um aðstöðu og aðgengi að auðlindum. Fyrirtækin í Jarðhitagarðinum byrjuðu öll sem öflug sprotafyrirtæki í Nýsköpunarkjarna og hafa fengið tækifæri til að vaxa og dafna.

Fyrirtæki í Jarðhitagarðinum

  • Climeworks

    Climeworks er leiðandi á heimsvísu í kolefnisföngun í lofti (e. DAC – Direct air capture). Í Jarðhitagarðinum fékk Climeworks tækifæri til að prófa og þróa tækni sína og komið henni þangað sem hún er í dag. Jarðhitagarðurinn er heimili tveggja lofthreinsistöðva, Orca og Mammoth, þar sem koldíoxíð er fangað úr andrúmsloftinu og dælt niður í jörðina í samvinnu við Carbfix.

  • VAXA Technologies

    VAXA Technologies er hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í ræktun smáþörunga til framleiðslu fæðubótarefna og náttúrulegra litarefna. Fyrirtækið hefur þróast frá því að vera lítið sprotafyrirtæki með starfsemi í einum tilraunagámi í það að starfrækja margra fermetra verksmiðju í Jarðhitagarði.

  • GeoSilica

    GeoSilica nýtir einstakar jarðhitaauðlindir Íslands til að framleiða hreint og náttúrulegt kísilfæðubótarefni sem stuðlar að heilbrigðum liðum, beinum og húð.

  • VON

    Orka náttúrunnar er eini vetnisframleiðandi Íslands. Vetnisstöðin VON, sem staðsett er við Hellisheiðarvirkjun, hefur frá árinu 2020 framleitt vetni sem nýtt er í samgöngur.

  • Jarðhitasýningin

    Á Jarðhitasýningu ON í Hellisheiðarvirkjun gefst gestum kostur á að fræðast um jarðvarmaframleiðslu á Íslandi, um starfsemi Hellisheiðarvirkjunar og hvernig auðlindir svæðisins nýtast á ábyrgan hátt í Jarðhitagarði.

  • Carbfix

    Carbfix er tæknilausn sem bindur koltvísýring í bergi á innan við tveimur árum. Aðferðin flýtir náttúrulegum ferlum í hvarfgjörnu basalti og veitir þannig örugga og varanlega bindingu með minni tilkostnaði en margar aðrar lausnir. Fyrirtækið hefur beitt tækninni allt frá árinu 2012 og er nú leiðandi á heimsvísu á sínu sviði.

Samnýting öllum til hagsbóta 

Samstarf okkar við fyrirtækin í Jarðhitagarðinum felur í sér er að unnt verður að fullnýta raforkuna og fjölnýta auðlindastrauma virkjunarinnar. Fyrirtækin á svæðinu eru ekki aðeins beintengd virkjuninni. Þau hafa einnig kost á að tengjast hvert öðru og samnýta þannig auðlindir, innviði og þjónustu, öllum til hagsbóta. Ennfremur felast tækifæri í því að vinna saman að betri nýtingu innan Jarðhitagarðsins, þannig að affall eða úrgangur eins fyrirtækis geti orðið að verðmætum annars.

Öll þau fyrirtæki sem nú starfa í Jarðhitagarðinum hafa vaxið upp af öflugum nýsköpunarsprotum. Við tökum ungum nýsköpunarfyrirtækjum opnum örmum því við vitum að það eru þeirra lausnir sem munu móta framtíð okkar allra.

Vertu með í Jarðhitagarði

Við bjóðum velkomin í samfélag Jarðhitagarðsins sjálfbærnimiðuð fyrirtæki, sprotafyrirtæki og nýsköpunarverkefni sem starfa til dæmis við orkuframleiðslu og orkunýtingu, landbúnað, þörungaeldi, líftækni, ferðaþjónustu, vistvæna efnisframeiðslu og þau sem leggja áherslu á heilsu og vellíðan.