Jarðhitagarður ON vekur athygli sem frumkvöðull í sjálfbærni

Fjallað var um Orku náttúrunnar og  Jarðhitagarð ON í nýjasta tölublaði bæði Sustainability Magazine og Energy Digital í grein eftir Steven Downes sem fjallar um Ísland sem land elds, íss og loftslagsnýsköpunar. Greinin rataði á forsíðu Energy Digital en í henni er áhersla lögð á það leiðandi hlutverk sem Orka náttúrunnar gegnir í sjálfbærri orkuframleiðslu og nýsköpun.

Í greininni er sérstaklega fjallað um Jarðhitagarð ON við Hellisheiðarvirkjun, sem er grænn iðngarður þar sem miðað er að því að fullnýta afurðir Hellisheiðarvirkjunar ON á ábyrgan og umhverfisvænan hátt og skapa verðmæti og ný tækifæri fyrir nýsköpun, samfélag og atvinnulíf. Í Jarðhitagarðinum starfa fyrirtæki á borð við Carbfix, Climeworks og VAXA sem öll hafa það að markmiði að þróa lausnir fyrir sjálfbæra framtíð en einnig var fjallað um fyrirtækin í greininni og samstarfið þeirra á milli.

Það undirstrikar mikilvægi íslensks hugvits og möguleika landsins í orkuskiptum og loftslagslausnum að ON og samstarfsaðilar skuli fá slíka umfjöllun á alþjóðlegum vettvangi.

Hér má lesa greinina í Energy Digital í heild.

Hér má lesa greinina í Sustainability Magazine (það þarf að skrá sig inn en það er frítt). Umfjöllun um ON og Jarðhitagarð byrjar á bls. 162.