Orka náttúrunnar og Carbfix héldu á dögunum vel heppnaðan viðburð á Jarðhitasýningunni í Hellisheiðarvirkjun í tilefni HönnunarMars. Þar stýrði Ingunn Gunnarsdóttir, leiðtogi nýsköpunar hjá ON, fróðlegri og áhugaverðum pallborðsumræðum þar sem fjallað var um hvernig arkitektúr, landslagsgerð og verkfræði geta unnið saman að því að skapa sjálfbærari lausnir.
Í pallborðsumræðunum var lögð sérstök áhersla á þverfaglegt samstarf, mikilvægi þess í sjálfbærni og hvernig allir sem koma að hönnun innviða geti lagt sitt af mörkum til grænni framtíðar. Gestir fengu að heyra hvernig náttúran á Hengilssvæðinu hefur mótað bæði hönnun Hellisheiðarvirkjunar, Jarðhitasýningarinnar og einnig hinnar fyrirhuguðu nýsköpunarmiðstöðvar Glóðar sem mun rísa í Jarðhitagarðinum á næstu misserum.
Eitt af skemmtilegu smáatriðunum sem komu fram í umræðunni var að spjótþak Hellisheiðarvirkjunar vísar í átt að Snæfellsjökli – hinum goðsagnakennda inngangspunkti að miðju jarðar í sögu Jules Verne.
Á táknrænan hátt minnti náttúran á vægi sitt þennan dag – þykk þoka umlukti allt svæðið og skyggði algjörlega á umhverfið sem rætt var um, líkt og sést á meðfylgjandi mynd.
Við þökkum öllum sem tóku þátt í viðburðinum og ekki síður þeim sem lögðu leið sína á viðburðinn.




