Umhverfi sem styður við vöxt: sögur úr Jarðhitagarði

Climeworks og VAXA Technologies eru tvö framúrskarandi fyrirtæki sem eiga það sameiginlegt að hafa vaxið innan Jarðhitagarðs ON. Bæði kolefnisföngunarverksmiðja Climeworks og hátæknigróðurhús VAXA byrjuðu sem tilraunarverkefni í gömlu Tæknigörðum, aðstaða sem var við Hellisheiðarvirkjun þar sem frumkvöðlar fengu tækifæri til að þróa hugmyndir og framkvæma tilraunir með jarðvarmatengdum auðlindum. Í dag eru bæði fyrirtækin orðin alþjóðlega þekktir leiðtogar á sínum sviðum.

Climeworks – kolefnisföngun sem gæti breytt leiknum

Climeworks er brautryðjandi í beinni kolefnisföngun úr andrúmsloftinu. Fyrstu tilraunir á Hellisheiði hófust árið 2017 með Artic Fox, búnaði á tilraunaskala sem fangaði um 50 tonn af koltvíoxíði á ári.

Eftir farsælar tilraunir reis svo kolefnisföngunarstöðin Orca árið 2021, hönnuð til að fanga allt að 4.000 tonn árlega. Árið 2024 opnaði nýjasta stækkunin, Mammoth, sem er stærsta kolefnisföngunarstöð í heimi og hönnuð til að fanga allt að 36.000 tonn af koltvíoxíði á ári. Það sem byrjaði sem lítil tilraunastöð hefur vaxið í alþjóðlega lausn í baráttunni við loftslagsbreytingar.

VAXA Technologies – sjálfbær framtíð örþörungaræktar

VAXA Technologies hefur þróað byltingarkennda tækni til sjálfbærrar matvælaframleiðslu með ræktun örþörunga í hátæknigróðurhúsi í Jarðhitagarði. Tæknin gerir fyrirtækinu kleift að ná tífaldri uppskeru miðað við hefbundna örþörungaræktun og notar innan við eitt prósent af því ferskvatni og landsvæði sem slík ræktun krefst.

VAXA hóf frumprófanir árið 2018 í bílskotti í Tæknigörðum við Hellisheiðarvirkjun, stækkaði fljótlega í gám fyrir prófanir á tilraunaskala og færði svo framleiðsluna í iðnaðarhús í Jarðhitagarði árið 2019. Aðstaðan hefur stækkað með fyrirtækinu og er í dag tæpir 10.000 fermetrar. Vaxtarsaga VAXA er lifandi dæmi um hvernig hugmyndir geta vaxið og dafnað í réttu umhverfi.

Glóðin sem verður að eldi

Tæknigarðarnir sem hýstu fyrstu skref Climeworks og VAXA voru lagðir niður vegna stækkandi starfsemi jarðhitavirkjunarinnar og öryggissjónarmiða á svæðinu. Arfleifð þeirra og það vaxtarumhverfi sem þeir sköpuðu mun þó lifa áfram í nýrri og endurbættri mynd.

Glóð – miðstöð nýsköpunar í Jarðhitagarði ON er verkefni í vinnslu sem kemur til með að opna á næstu árum. Glóð er hugsuð sem aðstaða þar sem framtakssamt fólk getur þróað hugmyndir, framkvæmt prófanir og kannað fýsileika þeirra, líkt og Climeworks og VAXA gerðu á sínum tíma. Við viljum fjölga þessum vaxtarsögum og byggja upp sjálfbæra framtíð iðnaðar og nýsköpunar.

Uppbygging Glóðar er í fullum gangi og við hlökkum mikið til að taka á móti fyrirtækjum og fólki þegar aðstaðan er risin. Þó að aðstaðan sé ekki tilbúin erum við þegar farin að blása lífi í Glóðina með samtölum og samstarfi við áhugasama aðila.

Ekki hika við hafa samband ef þú vilt vera hluti af Glóðinni, þar sem hugmyndir kvikna, vaxa og verða að umbreytandi eldi.

Frumhönnun að Glóð – fyrirhugaðri miðstöð nýsköpunar í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar.