Vetnisstöðin VON, er staðsett í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar og hefur hún frá árinu 2020 framleitt vetni sem nýtt er í samgöngur. VON framleiðir vetni með rafgreiningu vatns og nýtir til þess raforku frá Hellisheiðarvirkjun sem leidd er í gegnum vatn sem fengið er úr nálægu svæði. Úr þessu ferli verður til vetni og súrefni.
Vetnið er svokallað grænt vetni þar sem raforkan sem nýtt er í framleiðsluferlið kemur frá endurnýjanlegum orkugjafa en minna en 1% af vetnisframleiðslu í heiminum er hægt að flokka á þennan máta.

Annar vel eftirspurninni
Afkastageta VONar er um 100 tonn af vetni á ári sem er nægileg til að anna um það bil 800 vetnisfólksbifreiðum á ári eða 6-8 vetnistrukkum. Þetta er því ekki stór vetnisstöð en alveg nægilega stór fyrir þá eftirspurn sem er til staðar á Íslandi í dag sem er minna en 30 vetnisfólksbifreiðar. VON gæti þannig annað eftirspurn fyrir töluvert fleiri fólksbifreiðar en gert er í dag og því mörg tækifæri sem felast í vetnisframleiðslu.
Fjölbreytt orkuskipti
Orka náttúrunnar er eini vetnisframleiðandi Íslands og stefnir fyrirtækið að því að vera leiðandi í orkuskiptum og er meðvitað um að orkuskiptin þurfa að fara fram á fleiri en einn máta. Farið var að líta á vetnisframleiðslu sem áhugaverðan kost þegar styrkur fékkst frá Evrópusambandinu um að auka notkun á vetni sem orkugjafa fyrir bifreiðar. Vetnisbílar hafa þann kost að hafa stuttan áfyllitíma eða sambærilegan og hefðbundinn bensínbíll. Auk þess hafa vetnisbílar mikla drægni.
Bætt auðlindanýting
Það var þó einnig samspil jarðvarmavirkjana og vetnisframleiðslu og mögulega bætt auðlindanýting sem vakti áhuga Orku náttúrunnar á að taka þátt í þessu svokallaða tilraunaverkefni. Það er eðli jarðvarmavirkjana að framleiða frekar stöðugt afl á hverjum tíma. Það gerir það að verkum að þegar álag á raforkumarkaði er lágt verða til tímabil þegar framleiðsla raforkunnar er meiri en eftirspurn. Þetta gerist gjarnan um nætur þegar raforkuálag er með lægsta móti.
Hér eru kostir vetnisframleiðslu ríkir. Orka náttúrunnar getur ákveðið hvenær framleiðslan er sett af stað með tilliti til álags á raforkumarkaði. Slökkt er á framleiðslunni þegar álag fer að aukast á ný. Með þessu er auðlindin okkar nýtt á betri máta en ella. Umframorku, það er að segja orku sem ekki er eftirspurn eftir á ákveðnum tíma, er umbreytt í orku sem hægt er að nýta í samgöngur á tímum þegar það hentar raforkukerfinu vel.

Stökkpallur til framtíðar
Það hefur því miður lítið gerst í vetnismálum frá því að VON var tekin í gagnið. Það er ljóst að það þarf fleiri en eina vetnisframleiðslustöð til að koma vetnismálum af stað hér á landi. Auk þess sem fjölga þarf áfyllistöðvum til að fólk sjá sér hag í að færa sig yfir í vetni. Það er von Orku náttúrunnar að hægt sé að nýta VON til að liðka fyrir í vetnisþróun hér á landi. Við vonumst til þess að VON geti orðið einhvers konar stökkpallur fyrir framtíðar vetnisverkefni á Íslandi svo þau verkefni geti farið á flug og verði til þess að orkuskipti yfir í vetni öðlist kraft.