VAXA Technologies er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa aðstöðu í Jarðhitagarði ON sem er iðngarður í þróun í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar þar sem græn nýsköpun og ábyrg nýting auðlinda eru í fyrirrúmi.
Náttúrulegur blár litur í boði
Tilkynnt var í gær um tímamótasamning VAXA Technologies við matvælaframleiðandann Oterra um nýtingu á hráefnum úr smáþörungarækt og var blásið til veislu í Elliðaárstöð af því tilefni.
Smáþörungarækt VAXA Technologies fer fram í ræktunarstöð fyrirtækisins í Jarðhitagarði ON og er einn af þeim þörungum sem ræktaðir eru á Hellisheiði þeirrar náttúru gæddur að hann er blágrænn að lit. Að sögn Kristins Hafliðasonar, framkvæmdastjóra VAXA Technologies hefur aðgengi matvælaframleiðenda að náttúrulegum bláum lit hingað til verið takmarkað.
„Í fyrsta skipti í sögunni munu stórfyrirtæki í matvælaiðnaði geta notað náttúrulegan bláan lit í allar þær vörur sem þeim hugnast,“ segir Kristinn og bætir við að samningur fyrirtækjanna boði nýja sýn í matvælaiðnaði.

Orku breytt í mat
Oterra er lýst sem alþjóðlegum risa í matvælaiðnaði og einum stærsta þjónustuaðila matvælafyrirtækja um allan heim. Kristinn segir að með tilkomu samningsins sé hægt að lækka kolefnisfótspor matvælaiðnaðarins umtalsvert.
„E2F-kerfið gjörbreytir hugmyndum okkar um matvælaframleiðslu og er fyrsta skrefið í átt að því að veita öllu fólki aðgang að hollri og góðri næringu án þess að ganga á auðlindir jarðarinnar. Með beintengingu okkar við Hellisheiðarvirkjun tekst okkur bókstaflega að breyta orku í matvæli, án þess að ganga á náttúruauðlindir,“ segir Kristinn og vísar þar til E2F-tækninnar (Energy to Food) sem vísindafólk VAXA Technologies hefur hannað og byggt frá grunni.
Við hjá Orku náttúrunnar óskum VAXA Technologies til hamingju með samninginn og áframhaldandi góðs gengis um leið og við þökkum þeim gott samstarf.