Árið 2025 var afar viðburðaríkt og kraftmikið hjá Jarðhitagarði Orku náttúrunnar, þar sem stigin voru stór skref í uppbyggingu, nýsköpun og samstarfi. Áhersla var lögð á að styrkja Jarðhitagarðinn sem lifandi vettvang fyrir sjálfbæra orkunýtingu, hringrásarhugsun og þekkingarmiðlun, samhliða því að efla sýnileika svæðisins bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.
Í annál ársins 2025 er stiklað á stóru og helstu áfangar ársins dregnir fram, allt frá nýrri vefsíðu og vexti öflugra fyrirtækja í garðinum, til undirbúnings nýsköpunarhússins Glóðar, auk fjölbreytts samstarfs, kynninga og verkefna. Horft er fram á veginn með bjartsýni og tilhlökkun til áframhaldandi uppbyggingar og tækifæra á árinu 2026.
Stærstu málin í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar 2025
– Ný og glæsileg vefsíða Jarðhitagarðs Orku náttúrunnar fór í loftið.
– VAXA hélt áfram að vaxa á árinu. Climeworks hélt jafnframt áfram öflugri starfsemi á svæðinu og styrkti stöðu Jarðhitagarðs sem alþjóðlegs vettvangs fyrir nýsköpun og lausnir í loftslagsmálum.
– Við héldum skemmtilega nafnasamkeppni fyrir nýtt hús sem mun rísa á komandi árum innan Jarðhitagarðsins undir nýsköpun, samstarf og þekkingarmiðlun. Nafnið Glóð var valið úr miklum fjölda tillagna.
– Undirritaðar voru viljayfirlýsingar um samstarf við HÍ, HR, Orkídeu, LBHÍ og Íslenska sjávarklasann með það að markmiði að Glóð verði lifandi vettvangur rannsókna, nýsköpunar og þekkingarmiðlunar.
– Jarðhitagarður og Glóð voru kynnt víðs vegar bæði innanlands og erlendis, m.a. á Samorkuþingi, nýsköpunarfundi Samorku og alþjóðlegri ráðstefnu um sjálfbærnimál Sustainability LIVE.
– Unnið var að nýsköpunarverkefni þar sem lækur í Jarðhitagarðinum var færður á betri stað með notkun svokallaðra grjótpylsa.
– Fjöldi innlendra og erlendra gesta heimsótti ON og Jarðhitagarðinn á árinu, þar á meðal ráðamenn, borgarstjórar, alþjóðlegir leiðtogar og fjölmargir hópar sem sóttu Jarðhitasýninguna í Hellisheiðarvirkjun.



