Tendrum Glóð á heiðinni

Nýsköpunarfundur Samorku, Hugvit – hringrás – árangur, var haldinn 6. nóvember, þar sem fjallað var um fjölbreytt og spennandi nýsköpunarverkefni í geiranum. Fundurinn sýndi glöggt að mikil gróska er í nýsköpun í orku- og veitustarfsemi.

Ingunn Gunnarsdóttir, leiðtogi nýsköpunar hjá Orku náttúrunnar, flutti erindi um nýsköpun hjá ON og áform um Glóð, fyrirhugaða miðstöð nýsköpunar og þekkingarsetur jarðhita í Jarðhitagarðinum við Hellisheiðarvirkjun. Glóð er hugsuð sem vettvangur rannsókna, þróunar og samvinnu þar sem vísindi, tækni og atvinnulíf mætast með það að markmiði að hraða innleiðingu sjálfbærra lausna og efla nýtingu jarðhita. Erindi Ingunnar sýndi glöggt hvernig ON vinnur markvisst að því að skapa nýja framtíð jarðhitanýtingar byggða á fjölnýtingu, sjálfbærni og þekkingarmiðlun.

Á fundinum héldu einnig erindi Daði Þorsteinn Sveinbjörnsson, nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun, um framtíð innlendra orkuskipta og þróun rafhlaðnda; Nína Lea Z. Jónsdóttir hjá Landsneti um uppbyggingu snjalls raforkukerfis; og Eiríkur Sigurðsson, samskiptastjóri Hugverkastofu, kynnti niðurstöður skýrslu um skort á einkaleyfisumsóknum tengdum jarðvarma og endurnýjanlegri orku hjá íslenskum fyrirtækjum.

Ingunn fjallaði jafnframt um hvernig Orka náttúrunnar hefur verið leiðandi í nýsköpun hleðsluinnviða, þróun sem tengist beint orkuskiptum og rímaði vel við erindi Daða um framtíð innlendra orkuskipta. Hún kynnti hvernig ON hefur byrjað að raungera þessa framtíð með uppsetningu innviða fyrir næstu skref orkuskiptanna, bæði fyrir einstaklinga og þungaflutninga. Erindið varpaði skýru ljósi á markvissa vegferð ON í átt að sjálfbærri framtíð, þar sem Glóð verður lykilverkefni í áframhaldandi nýsköpun og samstarfi.

Á fundinum voru afhent nýsköpunarverðlaun Samorku og hlaut SnerpaPower þau að þessu sinni fyrir hugbúnaðarlausn sem hjálpar stórnotendum raforku að draga úr kostnaði, minnka sóun og auka sveigjanleika í raforkukerfinu.

Upptökur frá fundinum má nálgast á Vimeo síðu Samorku.